Valgerður Anna Einarsdóttir
Valgerður var að verða 28 ára þegar systir hennar Tóta Van Helzing greinist með illkynja heilaæxli, nýorðin þrítug.
„Þó svo þú óskir þér ekkert heitar en að geta tekið eitthvað af þessu á þig til að létta róðurinn þá er ekkert sem þú getur ekkert gert nema vera til staðar. Það þarf að sætta sig við að lífið verður aldrei það sama eftir svona hvort sem að manneskjan deyr eða ekki. Það birtir til og syrtir á víxl og það mun alltaf gera það“
Vala eins og hún er alltaf kölluð, bjó hinum megin á hnettinum þegar hún fékk símtal um miðja nótt frá systur sinni sem þá lá á spítala og sagði henni að hún hefði greinst með þrjú heilaæxli. Vala lýsir því að systir hennar hafi verið hennar uppáhalds manneskja í lífinu og þessar fréttir hafi verið yfirþyrmandi.
Vala ákvað að pakka saman lífi sínu í Ástralíu og fékk leyfi til að ferðast yfir hnöttinn heim til Íslands í miðjum Covid faraldri og var komin heim á annan í jólum. Tóta systir hennar fór í aðgerð 28. desember þar sem stærsta æxlið var fjarlægt en þetta var upphafið að löngu og erfiðu ferli.
Vala tók að sér að vera stoð systur sinnar og fór með henni í allar læknisheimsóknir, skrifaði niður það sem sagt var, skipulagði meðferðir og sá til þess að hún hefði allt sem hún þurfti. Vala segir að aðstæður sem þessar séu algjörlega ómögulegar þegar þær koma upp. Fólk hefur engra kosta völ, heldur neyðist til að horfast í augu við krabbameinið á sama tíma og þú reynir að vera hughreystandi en finnst þú lítið geta sagt sem bætir aðstæður. Upplifunin var segir Valgerður að hún væri trúður að reyna að dreifa athygli systur sinnar og allra frá þessum fáránlega sjúkdómi.
Tóta lést í fangi systur sinnar þann 3. desember 2021, þá nýorðin 31 árs. Við fengum aldrei tækifæri að ná einhverri yfirhönd í þessu verkefni, segir Vala.
Lífið er stutt og því miður getur það verið ógeðslega ósanngjarnt. Maður veit aldrei hvenær maður missir heilsuna eða eitthvað kemur uppá þannig það þýðir ekkert að bíða eftir betri tíma. Það er alltaf gott að minna sig á að maður deyr einu sinni en lifir alla daga þangað til, lífið er núna.
„Kraftur var stoð og stytta systur minnar, þá aðallega í formi jafningjastuðnings og mér þótti mjög vænt um það. Kraftur studdi mig auðvitað í gegnum hana því ég gat ekki gefið systur minni þennan jafningjastuðning, ég hafði aldrei fengið krabbamein. Mig langaði svo að geta teki eitthvað á mig og geta skilið aðstæður en maður er algjörlega hjálparvana í þessum aðstæðum“
LÍFIÐ ER NÚNA HÚFAN
Sýndu kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA húfuna
Hönnun húfanna er innblásin af verkum Tótu Van Helzing sem var félagsmaður í Krafti, en hún var stórkostlegur prjónahönnuður og listamaður. Hún er þekktust fyrir peysurnar sínar sem liggja á mörkum tísku, handverks og listar þar sem blandað er saman mismunandi áferðum í prjóni og garntegundum.
Húfan er fáanleg í tveimur útgáfum, appelsínugul með fallegu prjónamynstri og svört með hvítu munstri.
Húfurnar eru úr 50% ull og 50% endurunnu nylon.
Húfurnar fást á vef Krafts og á skrifstofu félagsins Skógarhlíð 8. Einnig verður hægt að kaupa það í völdum verslunum Krónunnar og Hagkaups og Rammagerðarinnar og í afgreiðslu Krabbameinsfélagsins.