Ragnhildur Þóra Hafsteinsdóttir
Ragnhildur Þóra var 36 ára þegar hún greindist með bráðahvítblæði AML, þá gengin 30 vikur á leið með son sinn.
„Skugginn birtist fyrst sem hræðslan við að deyja frá strákunum mínum en skuggi sem liggur þungt á mér í dag er óttinn við að endurgreinast“
Ragnhildur var gift, tveggjabarna móðir í mastersnámi og ólétt af þriðja barni þegar hún greindist. Meðgangan gekk vel en Ragnhildur var undrandi á hversu þreytt hún var á þessari meðgöngu samanborið við fyrri tvær. Ragnhildur var greind á fimmtudegi og var líf hennar og ófædda drengsins hennar í húfi. Lyfjameðferð hófst strax tveimur dögum eftir greiningu og var fjölskyldan og aðrir aðstandendur í miklu áfalli. Að auki kom í ljós hjartabilun sem gerði það að verkum að það yrði ekki öruggt fyrir hana að fara inn í fæðingu.
Ragnhildur segir að einhver ólýsanlegur kraftur hafi komið yfir sig þegar hún greindist og að frá fyrstu stundu upplifði hún að hún væri í öruggum höndum. Hún ákvað að takast á við þetta af æðruleysi, treysta ferlinu, á sama tíma og hún fann fyrir baráttuviljanum.
Fyrir algjört kraftaverk, þá fæddist drengurinn hennar heilbrigður á gjörgæsludeild á 33. viku. Hann byrjaði lífið á vökudeild og á niðurtröppun á morfíni en hann er kraftaverk og braggaðist vel.
Það er ekkert grín að ná sér aftur eftir meðgöngu og hvað þá í krabbameinsmeðferð á sama tíma segir Ragnhildur, sem fór í fjögurra skipta lyfjameðferð sem tók tæpa fimm mánuði eftir fæðingu. Í dag er hún þakklát fyrir lífið, þó það verði aldrei eins og áður. Hún segir að veikindin hafi kennt henni að taka ekkert sem sjálfsögðu og vera þakklát fyrir hvern dag.
„Kraftur er dásamlegt samfélag sem minnir mann á að lífið heldur áfram eftir svona áföll. Að heyra allar jákvæðu reynslusögurnar og sjá að hægt sé að lifa lífinu aftur eftir meðferð og að það birti til á endanum er ómetanlegt“
LÍFIÐ ER NÚNA HÚFAN
Sýndu kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA húfuna
Hönnun húfanna er innblásin af verkum Tótu Van Helzing sem var félagsmaður í Krafti, en hún var stórkostlegur prjónahönnuður og listamaður. Hún er þekktust fyrir peysurnar sínar sem liggja á mörkum tísku, handverks og listar þar sem blandað er saman mismunandi áferðum í prjóni og garntegundum.
Húfan er fáanleg í tveimur útgáfum, appelsínugul með fallegu prjónamynstri og svört með hvítu munstri.
Húfurnar eru úr 50% ull og 50% endurunnu nylon.
Húfurnar fást á vef Krafts og á skrifstofu félagsins Skógarhlíð 8. Einnig verður hægt að kaupa það í völdum verslunum Krónunnar og Hagkaups og Rammagerðarinnar og í afgreiðslu Krabbameinsfélagsins.