Pétur Steinar Jóhannsson
Pétur Steinar var 23 ára þegar hann greindist með Hodgkins lymphoma – eitilfrumukrabbamein á 2. stigi.
„Það fór að birta til undir lok lyfjameðferðarinnar þar sem sólin var ætíð hærra á lofti, dag frá degi og þá vissi ég að það væri stutt í mark“
Pétur var að byrja síðustu önn sína í Háskóla og var að flytja heim á Hellissand eftir 2 ára búsetu á Akureyri ásamt Stefaníu kærustunni sinni þegar hann greindist. Planið var að flytja aftur heim og byrja að vinna og var því högg að fá þessar fréttir. Öllum fannst þetta skrítið, Pétur var heilsuhraustur strákur í blóma lífsins en fékk upp úr þurru þetta verkefni upp í hendurnar.
Eftir fyrsta læknafund tók fjölskyldan þá ákvörðun að taka þessu verkefni eins og flest öllum verkefnum með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi. Pétur segir það hafa hjálpað mjög mikið til á erfiðustu og verstu dögunum því auðvitað hafði þetta mikil áhrif á líf hans og Stefaníu sem höfðu verið með plön um húsakaup og barneignir eftir námið. Á meðan meðferð stóð reyndi Pétur að hugsa ekki of langt fram í tímann en passaði sig þó að hugsa um hluti sem mætti hlakka til, eins og þegar sumarið kæmi aftur, gæti hann loksins farið að veiða og verja tíma úti í náttúrinni.
Í dag er Pétur kominn aftur út á vinnumarkaðinn og er hægt og rólega að ná í fyrri styrk. Hann sér ekkert annað en bjarta tíma framundan þar sem þessi lífsreynsla hefur kennt honum ansi margt á stuttum tíma. Setningin lífið er núna hefur sterkari þýðingu fyrir Pétur í dag en fyrir veikindin. Þegar þú ert heilsuhraustur 23 ára strákur og færð svona fréttir, áttaru þig á því að þú hefur ekki hugmynd um hvað morgundagurinn ber í skauti sér og er því mikilvægt að njóta hvers augnabliks segir Pétur.
„Ég sjálfur hef alltaf vitað af Krafti en datt aldrei nokkurn tímann í hug að ég þyrfti að leita í slíkt félag, enda mjög hraustur. En þegar ég fékk greininguna mína þá var eitt af því fyrsta sem við Stefanía gerðum, var að fara inn á Instagram hjá Krafti og leita að einhverjum sem hafði lent í því sama. Á svona tímapunkti vantar mann að geta tengt við einhvern og fengið svör við allskonar spurningum. Einnig má þakka þeim fyrir góðan stuðning við aðstandendur“
LÍFIÐ ER NÚNA HÚFAN
Sýndu kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA húfuna
Hönnun húfanna er innblásin af verkum Tótu Van Helzing sem var félagsmaður í Krafti, en hún var stórkostlegur prjónahönnuður og listamaður. Hún er þekktust fyrir peysurnar sínar sem liggja á mörkum tísku, handverks og listar þar sem blandað er saman mismunandi áferðum í prjóni og garntegundum.
Húfan er fáanleg í tveimur útgáfum, appelsínugul með fallegu prjónamynstri og svört með hvítu munstri.
Húfurnar eru úr 50% ull og 50% endurunnu nylon.
Húfurnar fást á vef Krafts og á skrifstofu félagsins Skógarhlíð 8. Einnig verður hægt að kaupa það í völdum verslunum Krónunnar og Hagkaups og Rammagerðarinnar og í afgreiðslu Krabbameinsfélagsins.