Vinkonur – Linda, Fanney og Lilja

 

Linda Björk Rögnvaldsdóttir 29 ára, Fanney Magnadóttir 34 ára og Lilja Karen Steinþórsdóttir 33 ára

 

„Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að haga sér þegar svona kemur upp“

Krabbamein hefur haft áhrif á vinkonurnar Fanneyju, Lilju og Lindu en Stella vinkona þeirra greindist með krabbamein og var þetta í fyrsta skipti sem þær voru að upplifa krabbamein hjá vinkonu og svona ungri og hraustri manneskju. Fréttin um greininguna kom því sem þruma úr heiðskíru lofti.

„Mér fannst símtalið við Stellu er hún sagði mér frá greiningunni mjög erfitt. Ég grét með henni vitandi að það var í raun ekkert sem ég gat gert nema vera til staðar fyrir hana. Fannst ég smá eins og ég væri illa gerður hlutur þar sem ég er vinkona en ekki náinn fjölskyldumeðlimur,“ segir Lilja. Vinkonurnar nefna það að þær vissu í raun ekki fyrst hvernig þær ættu að bregðast við og hvernig þær ættu að haga sér í kringum Stellu fyrst en svo var það ekkert mál. „Fyrst hélt ég að það væri öðruvísi eða erfitt að tala við hana og ég var pínu stressuð að hringja og tala við hana af því ég vissi ekki hvað ég átti að segja. En svo var það ekki þannig. Stella er ennþá vinkona mín og við tölum mikið saman um allt saman. Það breyttist ekki en auðvitað töluðum við meira um sjúkdóminn og aðeins öðruvísi hluti sem er bara eðlilegt“, segir Fanney.

Stelpurnar eru allar sammála um það að stuðningur skiptir höfuðmáli og það að vera til staðar bæði fyrir þann greinda sem og nána aðstandendur. Það þurfi líka að tala um hlutina opinskátt því það hjálpi mjög mikið. „Þegar við settumst niður og töluðum saman um þetta allt saman létti mjög á mér, ég náði haldi á mínum tilfinningum og fékk innsýn í hennar. Ég upplifði tilfinningarnar að ég gæti verið til staðar fyrir hana, hjálpað henni í gegnum hennar erfiðleika og verið góð vinkona/gott bakland,“ segir Linda. Þær lærðu það allar að með því að hlusta, tala saman og viðurkenna allar þær tilfinningar sem koma upp á borð þá léttir það bæði á aðstandendum sem og þeim greinda. „Mig langar að koma á framfæri að hlusta ávallt á einstaklinginn og heyra allar hans áhyggjur og vonir og ekki gera lítið úr áhyggjunum eða reyna að afskrifa þær þó að þér finnist erfitt að heyra það. Þær eru þarna og eiga rétt á sér í þessu alvarlega erfiða ferli. Ekki bera þig heldur saman við aðra því þeirra upplifun verður aldrei eins og þín“, segir Lilja

Stella greindist á Covid-tímum og það hefur vissulega ekki auðveldað aðstæður. Það flæki smá þegar maður vill vera til staðar. Vinkonunum hefur þótt erfitt að geta ekki faðmað Stellu og knúsað hana en þær hafi þó náð að eiga góðar stundir saman. Eins sé nauðsynlegt þá að hafa húmorinn í farteskinu. „Stella sendi t.d. Snapchat þar sem hún var að gera grín af því hvernig hárið hennar væri að vaxa til baka en það var eitt hár efst á hausnum hennar sem var lengra en öll hin. Það var frekar fyndið“, segir Fanney hlæjandi.

Þessi reynsla hefur vissulega styrkt vinskap stelpnanna og þær segja allar að sýn sín á lífið hafi breyst. Þær hafa lært það að skapa góðar minningar og eyða frekar tíma í að vera með fjölskyldu og vinum og njóta þess. „Ég hef lært að lífið er núna. Morgundagurinn er ekki gefins og heilsan okkar er það dýrmætasta sem við eigum,“ segir Lilja að lokum.

 

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941