Vinkona – Tinna Garðarsdóttir

33 ára

„Ég er svo þakklát fyrir að við erum þannig vinkonur að ég get rætt allt þetta við hana“

Vinkona mín greindist með krabbamein og vissulega er það búið að vera erfitt en einstaklega lærdómsríkt. Þessi lífreynsla hefur kennt mér að njóta litlu hlutana og sjá hvað það er sem skiptir máli í lífinu. Ég kann að meta lífið betur, núið og allt yndislega fólkið sem ég á.

Stella er líka þannig að hún verður aldrei fórnarlamb og vill ekki að maður sé eitthvað að vera óeðlilega umhyggjusamur, hún vill bara fá að taka þátt í öllu. Eins og þegar ég kom til hennar og hún var að pakka inn jólagjöfum stuttu eftir aðgerðina og hún gat það eiginlega ekki því hún var ekki með kraft í hendinni þá vildi hún bara fá að bögglast við það og gera það þá verr en vanalega í staðinn fyrir að ég myndi hjálpa henni. Mér finnst ég heppin að eiga þannig vináttu með henni að við getum rætt alla þessa hluti og fundið jafnvægi sem virkar. Að sambandið okkar sé þannig að ég geti bara spurt hana hvað hún vill og hvernig er rétt að koma fram.

Þetta kemur samt alltaf aftan að mér. Það sem maður veit fyrirfram að hún er að fara í gegnum var auðveldast, fyrir mitt leyti en auðvitað ekki fyrir hana. Þessir punktar sem eru þarna og maður veit af fyrirfram, að missa hárið, að fara í lyfjagjafirnar og aðgerðina og það, ég hélt að það yrði erfiðast. En maður hefur ekkert val í þeim aðstæðum, það er bara farið í gegnum þetta. En svo oft þegar maður er kominn út í bíl eða heim og einhver hugsun poppar upp, þá get ég alveg brotnað í þúsund mola. En það er aldrei erfitt að vera hjá henni eða með henni, það er bara alltaf gaman að vera með Stellu, sama hvort hún sé veik eða ekki.

Ég hef bara reynt að vera til staðar eins og ég get. Hef reynt að muna eftir læknistímum og lyfjagjöfum og fylgst með líðan hennar í kringum það. Ég hef minnt hana reglulega á að ég sé alltaf við símann og hún megi hringja dag og nótt og ég hef staðið við það.

Eftir þessa lífreynslu með Stellu þá er ég orðin miklu umburðarlyndari, mér þykir vænna um fólkið mitt og þessir litlu hlutir sem trufluðu mann áður eru alveg horfnir. Fólk má bara vera eins og það er og ég er svo þakklát fyrir fólkið sem ég á í lífinu mínu.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941