Vinkona – Layfey Harðardóttir

27 ára

„Þetta minnir mann líka á að gera meira af því sem lætur mann líða vel og vera til staðar fyrir hvert annað hvort sem við viljum hlæja eða gráta

Það að einhver í kringum mann greinist með krabbamein er afskaplega erfitt. Ég hef þónokkra tengingu við krabbamein og hef því miður misst nokkra ættingja af völdum krabbameins. Mér fannst fyrst rosalega óraunverulegt að vinur minn, sem er á svipuðum aldri, greindist með krabbamein.

Á svipuðum tíma og Jóhann greindist var bróðir pabba sem var búinn að vera að berjast við krabbamein í nokkur ár að fara á líknandi meðferð svo þetta voru erfiðir tímar. Jafnframt því kom svo samkomubann sem gerði það að verkum að maður hitti minna fólkið sitt þar sem það býr flest allt í öðrum landshluta og hélt sig heima.

Mér fannst mjög erfitt að geta ekki farið og hitt Jóhann og verið meira með honum í gegnum allt ferlið sökum covid og samkomubanns. Fyrst var ég eiginlega hálf hrædd að hringja í hann og tala við hann en þegar við svo töluðum saman þá var það alls ekkert mál. Það var magnað að sjá hvernig Jóhann tæklaði þetta allt saman. Alveg eins og hann gerir með öll verkefnin í lífinu.Hann hélt bara áfram, reyndi sitt besta, lét ekkert draga úr sér en leyfði sér líka að vera auðmjúkur og tilfinningaríkur.

Mér finnst þörf áminning að tala við þá sem standa manni næst og tala um hvernig manni líður. Það hjálpar alveg svakalega mikið. Að tala opinskátt um hlutina eins og þeir eru og á sama tíma að horfa á það jákvæða hverju sinni en líka „sætta“ sig við það neikvæða. Þetta minnir mann líka á að gera meira af því sem lætur mann líða vel og vera til staðar fyrir hvert annað hvort sem við viljum hlæja eða gráta.

Svona reynsla kennir manni líka að vera örlítið þakklátari fyrir góða heilsu og maður kann meira að meta góðar minningar.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941