Systir – Tinna Hallsdóttir

28 ára

„Við mættum bara til hennar með rakvélina og skáluðum fyrir lífinu“

Systir mín, Stella greindist með krabbamein. Ég hef alltaf sagt að það er engin Tinna án Stellu. Við erum bara tvær systur og ég hef alltaf litið upp til hennar og viljað vera eins og hún. Hún er sú manneskja sem hefur mótað mig mest allt mitt líf og ég einfaldlega gæti ekki lifað án hennar. Fyrir mér er hún ein mikilvægasta manneskjan í mínu lífi, og þar af leiðandi eiginlega sú versta í mínum heimi til að fá krabbamein. Að sama skapi vegna hennar karakter þá get ég ekki ímyndað mér neinn sem hefði getað tæklað þetta betur en hún! Algjör nagli og svo róleg og ákveðin í því að sigrast á þessu.

Það kom ekkert annað til greina en að sýna þessu krabbameini hvar Stella keypti ölið! Við fylgdum hennar hugarfari algjörlega og það var að vera bjartsýn, jákvæð og takast á við þetta sem verkefni. Það var einhvern veginn léttir þegar hún loksins byrjaði í lyfjagjöf. Þá var verkefnið hafið! Núna gátum við loksins byrjað að berjast við krabbameinið en tíminn á undan hafði verið erfiður og í mikilli óvissu í tíma sem leið eins og heil eilífð.

Stella ákvað að raka hárið á sér af. Það var engin sorgarstund. Við vissum að það myndi koma aftur og gerðum við gott úr þessu – algjörlega Stellu style! Vinkonur hennar komu til hennar og við skáluðum í búbblum, með rakvélina að vopni. Við höfðum gaman að þessu og klipptum og prufuðum fullt af styttri hárgreiðslum áður en það var allt rakað af. Sumar fyndnari en aðrar! Það var bara gleði yfir þessu og svo fór skallinn henni alveg ótrúlega vel. Krúttskalinn var svo algjörlega toppaður þegar fjögurra ára strákurinn hennar vildi alveg endilega líka vera með eins hár og mamma – og við rökuðum hann og voru þau í stíl.

Eftir að Stella greindist þá heyrði ég frá einni sem hafði verið aðstandandi í einhvern tíma og hafði því gengið í gegnum svipað og ég. Viðkomandi sagði mér að passa vel upp á sjálfan mig, þar sem sá sem er með krabbamein fær einhvern ótrúlega drifkraft til að berjast við krabbameinið en aðstandendur upplifa ekki sama kraft þó svo þau eru að sjálfsögðu til staðar.

Þetta ferli hefur þjappað okkur öllum vel saman, bæði fjölskyldu og vinum. Eins klisjulegt og það hljómar þá fær maður nýja sýn á lífið, maður finnur hvað skiptir virkilega máli. Þetta setur hlutina í samhengi og maður velur mun betur hvað maður ákveður að eyða orkunni í. Því maður þarf klárlega á orkunni að halda til að geta stutt við bakið á viðkomandi.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941