Skip to main content

Sóley Björg Ingibergsdóttir

Greindist 27 ára með brjóstakrabbamein

„Ég dýrka að sjá fólk með þetta armband þá finn ég hvernig þessi manneskja er að styðja mig með því að kaupa þetta armband því ég hef lent í þessu. Ég finn kærleikann til mín og stuðninginn sem mér finnst ótrúlega flott og fallegt.“

Árið 2019 þá komst ég að því að ég væri með BRCA 2 genið, allt bara gekk vel og læknirinn sagði að ég þyrfti ekkert að koma aftur fyrr en eftir fimm ár. En svo fór ég að sjá og finna hnút í brjóstinu árið 2021 og í mars það ár fékk ég greininguna: Brjóstakrabbamein. Ég lærði það að maður er aldrei of ungur til að fá krabbamein. Eins og ég. Ég var bara 26 ára þegar ég greindist með brjóstakrabbamein.

Þegar ég greindist þá var það ótrúlega mikið sjokk en ég fór eiginlega strax í heimsókn í Kraft eftir að ég byrjaði að lesa LífsKrafts bókina Fokk ég er með krabbamein sem ég fékk á spítalanum. Þau í Krafti tóku svo vel á móti mér og fjölskyldu minni. Ég fann það bara frá fyrstu mínútunni að hér væri hitt baklandið sem ég þurfti en hitt er náttúrulega fjölskyldan mín. Kraftur er búinn að hjálpa mér svo mikið í þessu ferli og jafningjastuðningurinn er bara númer eitt, tvö og þrjú. Ég var náttúrulega bara ótrúlega glær og vissi ekkert um krabbamein og hvað væri að fara gerast.

Ég byrjaði á að fara í lyfjameðferð í átta skipti og síðan eftir það fór ég í tvöfalt brjóstnám og teknir allir eitlarnir úr hægri hendinni og síðan endaði þetta á 15 skiptum í geislum. Fyrir það fór ég í eggheimtu á 27 ára afmælisdeginum mínum. Það er náttúrulega margt sem gerist á þessu tímabili. En þá lærði ég svo mikið af hinum stelpunum í Krafti og þær kenndu mér allskonar trix t.d. þegar ég missti matarlystina og hvað væri gott að gera ef maður missir hárið og þess háttar. Það er bara svo gott að læra af einhverjum sem hefur gengið í gegnum þetta frekar en lækninum sínum eða hjúkrunarfræðingi því þær eru ekki búnar að lenda í þessu. Stelpurnar eru búnar að lenda í þessu og þær vita hvað virkar. Það hjálpaði mér mjög mikið og var svo dýrmætt að ég þurfti ekki að vera finna upp hjólið alveg sjálf.

Krabbameinið er búið að kenna mér að taka út það sem skiptir engu máli og nú er ég bara að eyða meiri tíma með fólkinu sem ég elska og er það langmikilvægasta – allt hitt er bara aukaatriði.

Við fjölskyldan keyptum strax Lífið er núna armband eftir fyrstu heimsóknina í Kraft og við erum alltaf með það, líka bróðir minn og pabbi minn sem eru svona stórir karlmenn sem ganga aldrei með svoleiðis. Þegar ég sé fólk með armbandið þá finn ég hvernig þessi manneskja er að styðja mig með því að kaupa þetta armband því ég hef lent í þessu. Ég finn kærleikann til mín og stuðninginn sem mér finnst ótrúlega flott og fallegt.

Sóley elskar að fljúga og finnst það mesta frelsi sem hún veit um en er hún bæði atvinnuflugmaður og flugkennari. Hún hefur líka verið á fullu í cross-fit og ólympískum lyftingum en það hefur líka hjálpað henni við að ná styrk eftir meðferðirnar.

Lífið er núna armbandið

Sýndu Kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA armbandið.

Armböndin eru fáanlega í þremur stærðum, fyrir börn og fullorðna, og eru öll perluð af kraftmiklum sjálfboðaliðum.

Armbandið fæst á vef Krafts, og í völdum Krónuverslunum.

Kaupa armband
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941