Söfnunarútsending
4.feb. kl. 20:00

Kraftur með söfnunar- og skemmtiþáttinn „Lífið er núna“ í beinni útsendingu á Sjónvarpi Símans, K100 og í netstreymi á www.mbl.is.

Kraftur hefur fengið landsþekkta skemmtikrafta og tónlistarfólk í lið með sér til að skemmta áhorfendum og eru það engin önnur en GDRN, Valdimar, Ari Eldjárn, Sigríður Thorlacius og Páll Óskar sem munu stíga á stokk. Sóli Hólm og Sóley Kristjánsdóttir verða kynnar kvöldsins og munu þau einnig fá gott fólk í sófann til sín til að spjalla um málefni ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.

Það skiptir okkur í Krafti miklu máli að njóta augnabliksins og ætlum við að bjóða landsmönnum að njóta með okkur fyrir framan sjónvarpsskjáinn fimmtudaginn næstkomandi ásamt því að kynna þeim starf félagsins.

Lífið er núna þátturinn er lokahnykkur í vitundar- og árvekniátaki sem Kraftur hefur nú staðið fyrir síðustu tvær vikurnar. Markmið átaksins er að vekja athygli á hversu marga krabbamein snertir, selja húfur til styrktar félaginu og starfsemi þess sem og að afla styrkja fyrir félagið. Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári og þegar fólk greinist með krabbamein hefur það ekki einungis áhrif á það heldur fjölmarga í kring þar á meðal maka, foreldra, börn, vini, vandamenn og jafnvel vinnufélaga.

Áhorfendur þáttarins geta lagt Krafti lið með því að kaupa húfur til styrkar félaginu, hringja inn í símaver og gerast mánaðarlegir styrktaraðilar með því í að:

  • Hringja í síma 550-2000, gerast mánaðarlegur styrktaraðili eða gefa stakan styrk
  • Sendu SMS með textanum Kraftur í símanúmerið 1900 og 2500 kr. dragast af símreikningi
  • Kaupa húfur á www.lifidernuna.is
  • Styrkja í gegnum Síminn Pay App

Samstarf við Vetrarhátíð

Vetrarhátíð stendur yfir dagana 4. – 7. febrúar og er Kraftur liður í henni.

Vegna sóttvarnarráðstafanna verður hátíðin með breyttu sniði í ár og lögð áhersla á list í almannarými, útilistaverk o.fl. Söfnunarþáttur Krafts er liður í hátíðinni en honum verður sjónvarpað frá Mál og menningu Laugavegi 18 og verða Kraftsfélagar þar fyrir utan að selja Lífið er núna húfurnar fyrir vegfarendur.

Lífið er núna – Umhverfislistaverk

Umhverfislistaverkið, Lífið er núna, verður til sýnis að Laugavegi 31 yfir Vetrarhátíð og geta vegfarendur skoðað það og notið þess að sjá það breytast eftir því hvar þeir standa.

Verkið er partur af Lífið er núna árvekni- og fjárölfunarátaki Krafts sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandandur. Oft sérðu ekki hlutina í réttu samhengi fyrr en þú stendur akkúrat á ákveðnum stað en það er líka mismunandi frá hvaða sjónarhorni veikindi eins og krabbamein hefur áhrif á fólk og sér fólk það út frá mismunandi sjónarhorni þ.e. hvort þú sért faðir, maki, dóttir, vinur, vinnufélagi o.s.frv.

Hugmyndasmiður og hönnuður verksins er Guðrún Jónsdóttir hjá Hvíta húsinu og sá Aron Bergmann Magnússon, leikmyndahönnuður um útsetningu verksins.

Endilega takið mynd af ykkur við verkið og deilið henni jafnvel á samfélagsmiðlum með #lífiðernúna og sýnið þar með samstöðu með Krafti og öllum þeim sem krabbamein hefur haft áhrif á.

Hvað getur Kraftur gert fyrir þig?