Móðir – Kristín Dóra Karlsdóttir

63 ára

„Þetta hefur kennt mér, þrátt fyrir erfiðleika, að njóta lífsins. „Lífið er núna“!“ 

Eitt símtal og lífið fer á hvolf. Ég öskraði upphátt og hafði á tilfinningunni að ég væri að deyja, „af hverju hún, af hverju ekki ég?“ Það tók þrek og tár að komast aftur á réttan kjöl en lífið heldur áfram, sem betur fer.

Þegar Stella greindist fannst mér sem ég sykki til botns. Hausinn á mér hringsnérist og ég svaf lítið sem ekkert fyrstu vikurnar. Ég keyrði mig áfram án þess að stoppa. Ég gat ekki einu sinni farið í göngutúra án þess að hausinn færi á fullt, fann enga ró. Um haustið vorum við (eiginmaður og yngri dóttir) svo lánsöm að komast á fræðslukvöld hjá Krafti og á aðstandendanámskeið hjá Ljósinu sem algjörlega bjargaði lífi mínu. Núna er ég á góðri leið að synda í land.

Mottóið mitt hefur alltaf verið „að gefast aldrei upp“ og þannig hef ég stappað í mig stálinu. Frá byrjun ákvað ég að vera algjörlega til staðar fyrir Stellu. Ég tók að mér heimilisþrifin, þvottinn og hljóp í skarðið með litlu barnabörnin. Í byrjun fannst mér erfitt þegar ég tók að mér heimilisþrifin, fannst ég bókstaflega vera að ryðjast inn á heimilið. Núna er þetta bara tilhlökkun að vera innan um fólkið mitt. Gæðastundirnar með þeim hafa verið ómetanlegar og hjálpað mér að gleyma stund og stað.

Strax í byrjun lyfjameðferðar rakaði Stella af sér allt hárið og í ljós kom þetta fallega höfuðlag. Núna í dag er hárið farið að kíkja upp og minnir á lítinn, úfinn páskaunga!! Ég rakaði sjálf líka af mér allt hárið, Stellu til stuðnings, þegar hún byrjaði í lyfjagjöfinni eitthvað sem ég bjóst aldrei við að ég myndi gera.

Ég er stoltust af dóttur minni, henni Stellu. Hennar æðruleysi, hugarfar og jákvæðni í veikindum sínum eru aðdáunarverð. Þannig hefur hún sýnt mér að með slíku hugarfari kemst maður í gegnum alla erfiðleika. Í svona veikindum sér maður lífið í allt öðru ljósi. Þakklæti, vonin, þolinmæði, litlu hlutirnir í hversdagsleikanum verða gullmolar í tilverunni. Þetta hefur kennt mér, þrátt fyrir erfiðleika, að njóta lífsins. „Lífið er núna“!

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941