Maki – Guðjón Örn Helgason

36 ára

„Við tökum bara einn dag í einu og höfum hvíldina líka“

Þegar Stella greindist með brjóstakrabbamein ákváðum við strax að hætta ekki að njóta lífsins. Við þeystumst um allt land og fórum í fullt af ævintýrabíltúrum með krökkunum. Það er það skemmtilegasta í heimi! Við reyndum líka að gera hversdagslegu hlutina skemmtilega. Það sem stendur mest upp úr er þegar krakkarnir stukku eitt sinn með henni í baðið þegar hún var í kósí baði og voru í svaka stuði og þau hlógu ógeðslega mikið. Það var geggjað móment.

Á sama tíma er þetta það erfiðasta sem ég hef gert. En tíminn síðan hún greindist hefur samt verið skemmtilegur. Skrítið að segja þetta en við höfum verið að njóta lífsins þrátt fyrir erfiðleikana. Við fókusum á einn dag í einu og taka þetta á gleðinni og hvíldinni. Auðvitað koma slæmir og sumir mjög slæmir dagar. Og það má alveg líða illa en lykilatriðið er að líða vel að meðaltali. Það að vita að það koma bakslög, þau hafa komið og þau hafa verið mörg. En fókusa á einn dag í einu. Við peppum hvort annað upp en fyrir mér fékk hún ekki krabbamein heldur fengum við krabbamein og það er oft erfitt á sálina. Við erum öflug að styðja hvort annað upp úr niðursveiflunum.

Stella greindist þegar Hrafntinna, dóttir okkar, var mjög ung svo hún er búin að vera ólétt, jafna sig á meðgöngu og svo fara í krabbameinsmeðferð. Það er fokking hart. Ég horfi því á það þannig að ég sé um allt (með hjálp tengdó og fleiri) og ef hún getur eitthvað hjálpað með börnin eða heimilið þá er það bónus. Það er miklu betra að hún hvílist og eigi góðar stundir með krökkunum en að hún sé að taka til eða díla við krakkana á nóttunni. Við höfum fengið ómetanlega hjálp og við erum ekki feimin að sækja hana. Það er gott að geta hringt í fjölskyldur okkar eða vinkonur Stellu til að vera með krakkana meðan ég legg mig þegar ég er alveg búinn á því. Gleði og hvíld eru aðalatriðin.

Það sem hefur bjargað geðheilsunni er að vera ekki fastur í einhvers konar karma, sanngirnis hugsunum. Hræðilegir hlutir koma fyrir gott fólk og það er bara okkar að gera besta úr þessu.

Við reynum að gera einhvers konar ævintýri reglulega og njótum lífsins. Og ýtum öllum slæmum hugsunum í burtu, þær hjálpa ekki neitt.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941