Skip to main content

Katla Þórudóttir Njálsdóttir

19 ára dóttir

 „Pabbi talaði um lífið sem partý. Þú verður að hafa gaman í partýinu á meðan þú getur, áður en þér verður hent út, því lífð er núna“

Ég missti pabba minn úr krabbameini fyrir fjórum árum síðan en hann greindist með ristilkrabbamein árið 2016 og lést tveimur árum síðar.

Ég var að klára 8. bekk og var að lesa undir dönskupróf þegar hann fer upp á spítala því hann hélt að hann væri að fá botnlangakast en svo kom mamma heim af spítalanum og sagði mér að hann hefði greinst með krabbamein. Um leið og ég heyrði orðið krabbamein fór ég strax að syrgja því einhvern veginn þegar ég heyrði orðið krabbamein fór ég bara beint í dauðann og að ég þyrfti að fara kveðja pabba. En það er skrýtið því ég þekki alveg fólk sem hefur læknast af krabbameini.

Við fjölskyldan töluðum mjög opinskátt um veikindin hans pabba. Það var ekkert sykurhúðað þó að þau væru ekkert að hræða mig og systur mína sem er 7 árum yngri en ég. Við vorum alltaf mjög vel upplýstar og mikil hreinskilni og flæði í samskiptum enda erum við þannig fjölskylda og er ég mjög þakklát fyrir það. Ég spurði mikið af spurningum og pabbi var geðveikt krúttlegur, þegar þetta var nýbúið að gerast þá bankaði hann hjá mér og spurði hvort ég væri með einhverjar spurningar. Það bara opnaðist nýr heimur við að þora að spyrja.

Við notuðum líka húmorinn mikið sem fjölskylda til að komast í gegnum þetta sem er náttúrulega líka ákveðinn „coping mechanismi“ til að geta dílað við sársaukann. Við pabbi djókuðum oft með það að við urðum bæði fyndnari eftir að hann greindist. Við vorum miklu skemmtilegri og farin að djóka með allt og ekkert. Mér finnst þetta ennþá hjálpa mér og gerði þetta ferli bærilegra.

Eftir að pabbi dó sökkti ég mér bara í skólann og tók þátt í öllu sem ég gat en það var svo ekki fyrr en ég útskrifaðist úr menntaskóla að andlega áfallið kom að alvöru. Það kom bara þögn. Nú var ekkert að gera og allt kom upp á yfirborðið sem ég hafði ekki unnið úr. Það kom bara allt á einu bretti það sem ég var búin að troða niður. Þá fór ég á endanum til sálfræðings og hefur það hjálpað mjög mikið að “venta” við einhvern ókunnugan og ég er alltaf miklu léttari þegar ég labba þaðan út.

Ég fór tvisvar með pabba að perla armbönd hjá Krafti og hef líka perlað með vinkonum mínum eftir að pabbi dó. Ég geng með armbandið á hverjum degi því það hefur svo mikla meiningu fyrir mig. Ég finn fyrir svo mikilli ást og hlýju í hjartanu þegar ég sé líka einhvern annan með armbandið – finn fyrir svona óbeinum stuðningi og hugsa takk.

Katla er að fara í listaháskólann í leiklistarnám og unir sér best við leiklist og söng en hún yljar sér iðulega við minningar um pabba sinn þar sem hann sat við píanóið og hún að syngja með.

Lífið er núna armbandið

Sýndu Kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA armbandið.

Armböndin eru fáanlega í þremur stærðum, fyrir börn og fullorðna, og eru öll perluð af kraftmiklum sjálfboðaliðum.

Armbandið fæst á vef Krafts, og í völdum Krónuverslunum.

Kaupa armband
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941