Skip to main content

Jóhannes

Greindist 21 árs með Hodgkins eitlakrabbamein

 „Fyrir börnin mín“

Ég greindist fyrir 16 árum síðan með Hodgkins eitlakrabbamein en þá var ég 21 árs og er sem sé 37 ára í dag. Þetta var mjög mikið áfall fyrir mig og mína nánustu, fólk reyndi að vera sterkt fyrir mig og ég fann það. Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær.

Ég hafði tekið mér árs frí eftir MR og var að einbeita mér að því að læra á trompet. Ég var kominn með bólgur á hálsinn og hélt að ég væri kominn með álagsmeiðsli eða eitthvað slíkt af mikilli trompetspilamennsku og var svo ekki að tengja. En svo kom í ljós að ég var með krabbamein.

Þegar ég sat hjá lækninum og fékk greininguna þá voru mamma og pabbi með mér og þau voru sorgmædd og ég man að pabbi minn sagði „þetta er bara verkefni sem við þurfum að takast á við“ sem er náttúrulega ákveðin aðferð til að takast á við svona áföll og þannig fer ég inn í þessa meðferð. Ég tók verkefnið á minn eiginn máta. Þá var ekki til svona stuðningur eins og er nú hjá Krafti. Ég leitaði eftir upplýsingum á netinu og fann strák sem hafði bloggað um sína reynslu af eitlakrabbameini og við hittumst. Ég fékk allan þann jafningjastuðning sem ég þurfti frá honum. Þarna var einhver gaur sem var bara búinn með þetta, kominn á gott ról í ræktinni og lífinu og þetta gaf mér rosalega mikið, algjör orkubomba inn í þessa baráttu sem skipti ofboðslega miklu máli.

Kraftur kemur í rauninni inn í líf mitt eftir meðferðina. Mamma hafði verið að hvetja mig til að kíkja á Kraft en ég var á svo miklu mótþróaskeiði í gegnum meðferðina og vildi vera með mitt eigið prógram. Það var í rauninni ekki fyrr en ég fór í stjórn Krafts að ég fór að skilja hvað félagið er mikilvægt. Það heillaði mig mjög mikið þessi jafningjastuðningur, þessi faglegi jafningjastuðningur og það gaf mér rosa mikið að veita öðrum stuðning og gefa til baka.

Það skiptir máli að beina fólki á þessa leið af því þetta verkefni er alveg nógu stórt, að takast á við krabbamein, með takmarkaðan stuðning og að fara í gegnum kerfið. En þegar maður fær þennan auka stuðning hjá Krafti og getur sótt hann og skilið út á hvað hann gengur, það er ótrúlega verðmætt. Það skiptir máli að Kraftur sé vel þekktur og fólk sæki sér stuðning í þessu verkefni ásamt því að vera öflugur málsvari fyrir þennan hóp. Ungt fólk með krabbamein dettur á milli, fólk sem er að koma undir sig fótum í lífinu og síðan kemur eitthvað svona upp. Þetta er bara erfitt fyrir alla.

LÍFIÐ ER NÚNA KOLLAN

Sýndu Kraft í verki með því að setja upp LÍFIÐ ER NÚNA kolluna.

Húfurnar eru fáanlegar í tveimur litum og henta bæði fullorðnum og börnum. Það er hægt að bretta upp á þær að vild þar sem Lífið er núna merkið getur sést á alls kyns vegum.

Húfurnar fást á vef Krafts, í Companys Kringlunni, Karakter Smáralind og  völdum Krónuverslunum.

Kaupa húfu
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941