Guðrún Blöndal
Greindist 22 ára með Hodgkins eitilfrumukrabbamein
„Fyrir mig og alla sem greinast með krabbamein“
Ég er 22 ára og ég greindist fyrir ári síðan með Hodgkins eitilfrumukrabbamein. Ég var þá í hönnunargrunnámi en var búin með húsmálarann í Tækniskólanum og þurfti að hætta í miðju námi til að fara í krabbameinsmeðferð.
Þetta uppgötvaðist í rauninni þegar ég var að mála hjá frænku minni sem er læknir og var að segja henni að ég væri með skrítna kúlu á bringunni. Hún ákvað þá að senda mig í ómskoðun sem kallaði á meiri rannsóknir, það sáust skuggar á myndum og sýnataka staðfesti krabbamein. Um leið og ég fékk greininguna þá var ég ekki hrædd. Ég vissi að ég gat ekki breytt neinu heldur bara tekist á við þetta. Ég var send í skanna og fékk bæklinga frá Krafti og leitaði til þeirra.
Ég hef nýtt mér t.d. mikið StelpuKraft en þar eru jafningjar manns. Þær gefa góð ráð sem læknarnir eru ekki að pæla í t.d. að taka með sér vatnsbrúsa og eigið teppi í lyfjagjafir því teppin á spítalanum eru ekki geðsleg. Það er frábært að fá svona jafningjastuðning, einhvern sem skilur mann og getur gefið raunveruleg ráð. Það er geggjað að geta talað við einhvern sem gengið hefur í gegnum það sama og að geta speglað sig í öðrum. Þær hlæja með mér sem aðrir þora oft ekki.
Það var í raun meira sjokk fyrir fjölskylduna en mig þegar ég greindist fyrst með krabbamein. Yngsta barnið, litla barnið orðið veikt. En það var núna meira sjokk fyrir mig að greinast aftur því núna í desember fór ég í skanna og það sést að krabbameinið er búið að stækka. Það er eins og blaut tuska í andlitið að vera ekki ódauðleg og maður fer að endurhugsa lífið – hvað sé í raun mikilvægast í lífinu.
LÍFIÐ ER NÚNA KOLLAN
Sýndu Kraft í verki með því að setja upp LÍFIÐ ER NÚNA kolluna.
Húfurnar eru fáanlegar í tveimur litum og henta bæði fullorðnum og börnum. Það er hægt að bretta upp á þær að vild þar sem Lífið er núna merkið getur sést á alls kyns vegum.
Húfurnar fást á vef Krafts, í Companys Kringlunni, Karakter Smáralind og völdum Krónuverslunum.