Skip to main content

Guðbjartur Stefánsson

 52 ára faðir

 „Að skapa minningar er það dýrmætasta sem við gerum. Þessi setning á armbandinu – Lífið er núna – er mjög sterk og er mjög mikilvægt að skilja hana. Þetta er ekki svona eins og þú hendir öllu í lífinu frá þér og ætlir bara að lifa því rosalega hamingjusamur af því að það er miklu dýpri meining á bak við þetta.“


Ég er þriggja barna faðir og á yndislega eiginkonu. Við eigum strák, hann Arnar, sem upprunalega greindist í mars 1995 þá einungis fimm ára gamall með hodgkins krabbamein en hann var tiltölulega fljótur að ná sér af því krabbameini. En það var ekki fyrr en núna 26-7 árum seinna sem hann fær annars konar krabbamein sem hefur í raun engan skyldleika.

Arnar greindist í október á síðasta ári með beinkrabba á fjórða stigi með móðuræxli í hægri öxl. Það er svolítið sérstakt að segja frá því en öll þessi ár sem líða þarna á milli þá er maður einhvern veginn í trú um að hann sé búinn að ganga í gegnum þetta og þetta komi aldrei fyrir aftur. Einhvern veginn þó, einhvers staðar aftarlega í hausnum, hefur þetta læðst svona að manni að þetta gæti komið aftur en þá kannski eitthvað líkara því krabbameini sem hann var með. Við vorum engan veginn undir það búin að þetta væri beinkrabbi á fjórða stigi sem væri búinn að dreifa sér í lungu og lifur og á fleiri staði.

Við höfum leitað til Krafts og munum gera það áfram því það hjálpar okkur í þessu erfiða verkefni sem við öll fjölskyldan erum að takast á við. Við erum mjög samrýmd fjölskylda og styðjum Arnar í að lifa sem eðlilegustu lífi. Það er ekkert val. Þetta er verkefni sem hann hefur því miður fengið. Það að vera pabbi og fylgjast með syni sínum svona veikum er svo sannarlega erfitt. Ég reyni að hugsa ekki of djúpt um þetta því það er svo erfitt því þetta er náttúrulega svo frábær strákur. Hann er góðmennskan uppmáluð og þessi týpa sem vill ekki gera flugu mein og að þurfa að kljást við þetta tvisvar er bara hræðilegt en við verðum að halda áfram að berjast. Það er eina leiðin. Arnar á líka 13 ára stelpu sem er sterk stelpa sem má spyrja að öllu og hún er ljósið í lífi hans og rífur hann upp ef sálartetrið er eitthvað aumt út af þessum aðstæðum.

Þessi setning Lífið er núna er svo sterk setning og það er mjög mikilvægt að skilja hana. Þetta er ekki svona eins og þú hendir öllu í lífinu frá þér og ætlir bara að lifa því rosalega hamingjusamur. Það er miklu dýpri meining á bak við þetta. Ég geng með Lífið er núna armbandið á hverjum degi því þetta er góð áminning. Það eru ekki allir dagar alltaf góðir og það er gott að hafa armbandið að minna mann á að njóta þess að vera hér og nú.

Guðbjartur er flugvirki og starfar í skipulagsdeild hjá Play air og nýtur þess að hjóla um víðan völl en hjól eru hans helsta áhugamál og hefur hann m.a. hjólað frá Kaupmannahöfn til Parísar með Team Rynkeby til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

Lífið er núna armbandið

Sýndu Kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA armbandið.

Armböndin eru fáanlega í þremur stærðum, fyrir börn og fullorðna, og eru öll perluð af kraftmiklum sjálfboðaliðum.

Armbandið fæst á vef Krafts, og í völdum Krónuverslunum.

Kaupa armband
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941