Skip to main content

Hilmar Orri Jóhannsson og Elín Gunnarsdóttir

Hilmar sem greindist 23 ára með eistnakrabbamein og Elín, 25 ára, unnusta hans

 „Armbandið minnir mig alltaf á að Lífið er núna. Mín lífsreynslu hefur nefnilega kennt mér að fanga augnablikið. Ég veit aldrei hvað gerist á morgun“ 

„Ég greindist með krabbamein í mars árið 2021 og í raun fyrir tilviljun. Við höfðum verið á árshátíð á föstudegi og ég vaknaði alveg óvenju slappur í maganum morguninn eftir. Ég gat ekki legið á maganum, bakinu eða á hliðinni. Á endanum samþykkti ég að fara upp á bráðamóttöku. Elín gat ekki farið með mér vegna Covid. Ég endaði á að vera settur í ómskoðun og hringdi ég svo í hana þegar ég fékk þá niðurstöðu að það væri einhver fyrirferð,“ segir Hilmar.

„Þegar hann hringdi og sagði mér að það væri einhver fyrirferð þá vissi ég að hann væri með krabbamein en hann gerði sér enga grein fyrir því. Læknarnir notuðu líka orðið ,,tumor“ en hann kveikti ekki á perunni fyrr en þeir sögðu honum að þetta væri æxli. Okkur fannst þetta alveg ótrúlegt. Við höfðum verið að skemmta okkur deginum áður og á einum degi þá bara umturnaðist lífið. Hvernig gat þessi hrausti 23 ára strákur, í námi, með eins árs gamla dóttur og einhvern veginn í blóma lífsins allt í einu verið með krabbamein,“ segir Elín.

Hilmar greindist með eistnakrabbamein og var með stórt meinvarp í kviðarholi sem var að valda verkjunum sem dró hann upp á bráðamóttöku. Lífið gjörsamlega umturnaðist. Hann greindist á laugardegi, fór í aðgerð á þriðjudegi þar sem eistað var fjarlægt og á fimmtudegi var hann byrjaður í mjög sterkri lyfjameðferð í innlögn á krabbameinsdeildinni.

„Hlutverkin á heimilinu breyttust rosalega. Hans fókus var að komast í gegnum þessar lyfjameðferðir og aðgerðirnar og að ná heilsu aftur. Ég fór í umönnunarhlutverkið og að vera foreldri númer eitt. Í hreinskilni var þetta rosalega erfitt. Á tíma vorum við ekkert samtaka, við vorum bara í „survivor mode“. Kannski líka því þetta fór svo hratt af stað og okkur var bara hent inn í þeytivindu,“ segir Elín.

„Auðvitað var mikið sjokk að greinast með krabbamein. Það að vera heilbrigður og svo allt í einu krabbameinsgreindur. Það tók langan tíma fyrir mig að sætta mig við að þetta væri staðan. Dagarnir voru ógeðslega lengi að líða, óvissan var mikil og með hverjum dropa af lyfjum hrakaði heilsunni. Það var mjög erfitt að geta ekki leikið við litlu stelpuna mína og halda á henni,“ segir Hilmar.

„Við leituðum til Krafts þegar ég greindist og fengum við bæði jafningjastuðning. Strax eftir fyrstu lyfjagjöfina fékk ég símtal frá einum sem hafði greinst með sömu tegund af krabbameini og ég. Hann gat frætt mig um það sem var framundan og hjálpaði það mér mjög mikið,“ segir Hilmar.

„Ég fékk líka jafningjastuðning. Ég fékk stuðning frá konu sem hafði verið í mjög svipaðri stöðu og ég og það var rosalega gott að geta speglað sig í einhverjum svo maður gat vitað hvernig næstu skref væru og líka að þetta gæti orðið allt í lagi. Í gegnum þessa lífsreynslu hef ég oft átt samtal við sjálfa mig um hvernig ég ætli að láta þetta kenna mér og bæta mig og svarið er alltaf það sama – Lífið er núna. Lífið er ekki næstu helgi eða næsta sumar eða þegar þú ert búin að gera hitt og þetta,“ segir Elín.

„Það að ganga með Lífið er núna armbandið hefur mikla merkingu fyrir mig aðallega þar sem ég öðlaðist ný gildi í lífinu í krabbameinsmeðferðinni og fann hvað skiptir mig virkilega máli. Eins og í mínu dæmi þá einhvern veginn breyttist lífið á einni nóttu; veisla á föstudegi og krabbamein á laugardegi,“ segir Hilmar.

Hilmar og Elín byrjuðu saman þegar þau voru 13 og 14 ára. Þau eru bæði í námi, Elín í tannlæknanámi og Hilmar í viðskiptafræði. Þau eru nýtrúlofuð eftir 11 ára samband og nýbúin að kaupa sína fyrstu íbúð. Þeim finnst allra mikilvægast í lífinu að vera með fjölskyldunni sinni og njóta þess að eyða sem flestum stundum með tveggja ára dóttur sinni.

Lífið er núna armbandið

Sýndu Kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA armbandið.

Armböndin eru fáanlega í þremur stærðum, fyrir börn og fullorðna, og eru öll perluð af kraftmiklum sjálfboðaliðum.

Armbandið fæst á vef Krafts, og í völdum Krónuverslunum.

Kaupa armband
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941