Greindist með krabbamein Jóhann Björn Sigurbjörnsson

25 ára

„Bara það að geta lært af reynslu annarra það breytti öllu fyrir mig. Það setti lífið í samhengi“

Ég er bara þessi klassíski íþróttagaur, er að keppa í frjálsum og bjóst aldrei við að fá krabbamein. Fólkið í kringum mig varð líka mjög hissa og ég fékk oft athugasemdir á við: „En þú ert svo flottur og reglusamur“. Þetta sýnir manni bara að krabbamein spyr ekki um stétt né stöðu.

Ég átti erfitt í meðferðinni því að greinast á Covid-tímum hefur engan veginn gert hlutina auðveldari. Ég labbaði oft einn um bæinn, hálftómur en ég lærði líka að vera einn með sjálfum mér. Í lok meðferðarinnar þegar var ég alveg búinn á því eftir átta lyfjagjafir þá grét ég öll kvöld. Ég fann að á þeim tímapunkti hvað ég var búinn að ganga í gegnum erfiða hluti og hausinn á mér var einhvern veginn út um allt. Það að liggja inn á sjúkrahúsi á þessum tíma er mjög einmanalegt en starfsfólkið á spítalanum var samt alveg yndislegt og hjálpaði mér mikið.

Það að fara í Kraft hjálpaði mér líka ótrúlega mikið. Ég hitti sálfræðing hjá Krafti og fékk upplýsingar um allt ferlið og hitti aðra sem hafa verið í svipaðri stöðu og lærði af reynslu annarra. Ég lærði að lifa í núinu. Að standa úti og draga andann og hlusta á umferðina. Ég fór að taka meira eftir umhverfinu í kringum mig og er hættur að vera flýta mér út um allt og sé lífið í allt öðru ljósi.

Aðstandendur gleymast oft þegar krabbamein er annars vegar og það var bara spurt að því hvernig ég hafi það en ekki hvernig þeim sem eru næst mér hafa það. Einhvern veginn var bara einblínt á mig. En aðstandendur geta líka sótt sér stuðning t.d. hjá Krafti og ég veit að það hjálpar mikið. Það að hafa líka aðstandanda með sér í læknisviðtöl skiptir sköpum því hann getur spurt læknana spjörunum úr og man miklu meira en maður sjálfur því maður er oft rosalega ringlaður í þessu ferli.

Mér finnst besta leiðin til að komast í gegnum þetta er að segja allt sem maður meinar, vera einlægur og hreinskilinn. Ég fann líka að lítil skilaboð frá öðrum hjálpuðu mikið. Bara eitt lítið hjarta í skilaboðum getur hjálpað. Oft hefur maður ekki orku til að tala en að fá svona lítil skilaboð hjálpar mikið. Maður fattar að fólk hugsar til manns, jafnvel þótt ekkert samtal eigi sér stað að neinu alvöru leyti.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941