Greind – Stella Hallsdóttir

Greindist 32 ára með krabbamein

„Lífið hendir stundum í mann verkefnum sem virðast óyfirstíganleg en þá er gott að hafa bakland sem grípur mann og verkefnin sem fólkið í kringum mann fær geta verið alls konar“

Ég greindist með krabbamein þegar ég var nýbúin að eignast barn. Ég var með dóttur mína á brjósti og fann þá fyrir hnút. Að finna fyrir stuðningi á svona erfiðum tímum er algjörlega ómetanlegt og bara lífsnauðsynlegt að mínu mati. Auðvitað er maður hræddur þegar maður greinist með lífsógnandi sjúkdóm en með sterku baklandi er alltaf hægt að lýsa upp dimmustu dalina.

Stuðningur getur komið í ýmsum formum og það þarf ekki að vera meira en að senda manneskjunni línu að þú sért að hugsa til hennar. Stundum geta falleg skilaboð, eitt hjarta eða símhringingar bjargað alveg deginum og það gefur manni svo mikið. Maður fær einhvern óútskýranlegan kraft að vita til þess hvað það eru margir sem hugsa fallega til manns og „halda með manni“. Mér finnst líka svo fallegt þegar fólk notar orð eins og „við“…til dæmis „við erum saman í þessu“, „við stöndum með þér alla leið“ eða „við komumst í gegnum þetta saman“. Það gefur manni mikinn kraft að heyra svona. En ég hef fengið óendanlegan stuðning frá fjölskyldu, vinum, ýmsu fólki í kringum mig og að sjálfsögðu Krafti.

Ég man þegar ég opnaði mig fyrst um að ég væri með krabbamein. Það var alls ekki auðvelt og ég var ekki alveg viss hvort ég vildi endilega gera það en eftir mikla umhugsun ákvað ég að slá til og deila því á samfélagsmiðlum. Ég fæ ennþá gæsahúð og fyllist djúpu þakklæti þegar ég hugsa um viðbrögðin sem ég og fjölskyldan mín fengum frá vinum, kunningjum, gömlum vinnufélögum og fleirum í kjölfarið. Það gefur manni svo sannarlega kraftinn sem maður þarf svo mikið á að halda á svona erfiðum tímum til þess að keyra þetta í gang, spenna beltið og bomba í fimmta gír. Stefnan tekin á ekkert nema sigur og þér líður eins og þú getur allt með her af fólki sem er tilbúið til að berjast með þér.

Mér finnst orðið ómetanlegt eitthvað svo máttlaust og ekki ná að lýsa því nógu vel hvað stuðningur í hvaða formi sem er skiptir raunverulega miklu máli þegar maður stendur frammi fyrir því að þurfa að berjast fyrir lífi sínu. Ég held samt að orðið ómetanlegt komist kannski næst því að lýsa tilfinningunum sem maður upplifir en önnur orð sem komast nálægt því líka eru kærleikur, djúpt þakklæti, umhyggja, hlýhugur, samstaða og ótrúleg góðvild.

Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur fundið sterkt fyrir kærleikanum frá fólki á svona erfiðum stundum í lífinu. Og það sem er svo magnað er hvað kærleikurinn er miklu sterkari en allar aðrar slæmar tilfinningar…og í raun yfirgnæfir þær.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941