Skip to main content

Halla Dagný Úlfsdóttir

Greindist 24 ára með leghálskrabbamein

„Þú getur misst heilsuna á morgun eða eftir 20 ár, þú veist það ekki. Og þú veist heldur aldrei hversu lengi þú hefur fólkið þitt hjá þér og Lífið er núna armbandið minnir mig bara á að taka því ekki sem sjálfsögðum hlut.“ 

Ég greindist árið 2018 með leghálskrabbamein á fjórða stigi og hef endurgreinst tvisvar síðan þá. Ég segi bara allt er það sem þrennt er, vona og krossa fingur að þetta sé komið gott hjá mér.

Yfirleitt þegar að þetta krabbamein greinist á 4. Stigi eins og það gerði í mínu tilfelli, þá hefur það tilhneigingu til þess að koma alltaf aftur og aftur. En þrátt fyrir að hafa endurgreinst tvisvar hef ég verið mjög heppin. Meðferðirnar sem ég hef farið í hafa gengið vel þar sem að ég hef alltaf losnað við meinið og, eins og staðan er í dag, aldrei verið eins lengi laus við það og nú og er hér hraust og líður vel sem er alls ekki sjálfgefið.

Meðferðirnar sem ég hef farið í samanstanda af ótal lyfjameðferðum og þegar ég greindist í annað skiptið fór ég í geislameðferð meðfram lyfjameðferð. Þegar ég greindist síðast gat ég svo farið í skurðaðgerð þar sem meinið var staðbundið þannig að ég fór í legnám. Meðferðirnar hafa eins og gefur að skilja gert það að verkum að ég get ekki eignast börn.

Ég er einhleyp og hef eiginlega ekkert verið að deita því mér finnst þetta vera svolítið stór pakki og ég veit hreinlega ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þeim efnum. Ég lifi með það að ég get alltaf greinst aftur, vonandi ekki en maður veit aldrei. Eins og staðan er núna ætti ég smá erfitt með það að fá ungan mann í blóma lífs síns inn í líf mitt og draga hann inn í þetta þar sem ég hef bara verið krabbameinslaus í tæplega eitt og hálft ár. Hvernig og hvenær á ég að segja það á stefnumóti að ég hafi verið með sjúkdóm og gæti mögulega greinst aftur, hvenær sem er, og já að auki þá get ég ekki eignast börn, en hæ!

Kraftur hefur hjálpað mér ótrúlega mikið í þessu ferli og ég hef nýtt mér ýmsa þjónustu hjá félaginu og þar með talið StelpuKrafts-hópinn. En það er ómetanlegt að geta leitað í jafningjastuðninginn þar. Ég einhvern veginn datt smá út úr öllu, vinir manns eru eðlilega að halda áfram að lifa lífinu en maður er að takast á við svo allt annan pakka. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fundið einhvern stað þar sem mér finnst ég eiga heima og geta leitað til allra þeirra jafningja sem eru í Krafti.

Ég geng nánast alltaf með Lífið er núna armbandið því það minnir mig á að taka morgundeginum ekki sem sjálfsögðum hlut. Þegar ég sé annað fólk með armbandið þá finnst mér það alltaf mjög skemmtileg og maður fær alveg gott í hjartað. Maður finnur fyrir einhverjum svona meðbyr og stuðningi að annað fólk sé meðvitað um félagið, eða um krabbamein og áhrifin sem það hefur á bæði krabbameinsgreinda og aðstandendur. Ég fyllist ákveðnu stolti því ég náttúrulega elska þetta félag og það hefur verið stór partur af lífi mínu síðustu árin og það skiptir mig miklu máli.

Halla Dagný starfar sem jógakennari og nýtur þess efla heilsuna og njóta lífsins.

Lífið er núna armbandið

Sýndu Kraft í verki með því að bera LÍFIÐ ER NÚNA armbandið.

Armböndin eru fáanlega í þremur stærðum, fyrir börn og fullorðna, og eru öll perluð af kraftmiklum sjálfboðaliðum.

Armbandið fæst á vef Krafts, og í völdum Krónuverslunum.

Kaupa armband
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941