Faðir – Hallur Birgisson

63 ára

„Það er erfitt að finna að maður gat ekki stjórnað tilfinningunum sínum, maður brotnar saman og grætur.“

Manni líður ömurlega í gegnum þetta ferli og finnst lífið mjög ósanngjarnt. Lífsviðhorfið breytist þannig að maður hættir að hugsa um hvað maður ætlar sjálfur að verða gamall og verður í staðinn tilbúinn að gefa það allt upp á bátinn ef hægt væri að skipta um hlutverk við dóttur sína og taka sjálfur við þessum sjúkdómi.

Það var erfitt að finna að maður gat ekki stjórnað tilfinningunum sínum, maður brotnar saman og grætur. Það er helvíti erfitt. Ég, fullorðinn maður, sem hef verið alinn upp í gömlu tímatali, þar sem fullorðnir karlmenn gráta ekki. Síðan í beinu framhaldi, breyttist þetta þegar í ljós kom í desember að krabbameinið hafði verið fjarlægt og horfið úr líkama dóttur minnar, þá var það mjög eðlilegt að gráta, enda tilefnið mun gleðilegra.

Ljúfsár minning var þegar dóttir mín kom úr annarri lyfjagjöfinni með kalna putta. Hún var heppin að þeir jöfnuðu sig að mestu leyti aftur. Ástæðan var sú að lyfjagjöfin var svo sterk að hætta var á að hún missti neglurnar. Því átti hún að hafa hendurnar í vel köldum sérútbúnum vettlingum til að kæla puttana og koma þannig í veg fyrir að missa neglurnar. Hún var svo staðráðin í að missa ekki neglurnar, að hún tók aldrei hendurnar úr vettlingunum á meðan lyfjagjöfin stóð yfir. Hjúkrunarfræðingarnir fengu áfall þegar þeir sáu puttana og sögðu að hún væri alltof mikill nagli, hún hefði átt að taka pásur og hvíla puttana. Þetta sýndi að hún var staðráðin í að missa ekki neglunar í lyfjagjöfinni.

Það sem róar hugann mest er að tileinka sér jákvæðni og hugsa um hversu langt læknavísindin eru kominn í dag og að þau geta gert kraftaverk fyrir mjög marga. Ég er stoltastur af því hvað dóttir mín hefur sýnt mikið æðruleysi og bjartsýni í hennar veikindum. Það hefur þroskað mig mikið, mig gamla manninn. Hélt að ég væri læriföður hennar en það hlutverk hefur algjörlega snúist við.

Mín skilaboð til annara aðstandenda sem koma til með að upplifa þennan sjúkdóm er að gefa áfallinu u.þ.b. vikutíma. Leita þá aðstoðar hjá Krafti eða Ljósinu. Ég var sjálfur mjög skeptískur á að fara á þessa staði, var með gamla hugsun um að byrgja þetta inni og ekki tala við aðra. Eftir fyrstu skiptin hjá Krafti og Ljósinu opnaðist ákveðin gátt og það var ákveðinn léttir að hlusta á aðra sem voru í sömu sporum. Það hjálpaði mér mjög mikið og gerði lífið mun auðveldara.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941