Skip to main content

Ellen

Greindist 33 ára með þriðja stigs brjóstakrabbamein

 „Fyrir mig, StelpuKraft og fjölskylduna“

Ég var 33 ára þegar ég greindist með þriðja stigs brjóstakrabbamein. Ég var stödd í Staðarskála á leið í skíðaferð með manninum mínum og dætrunum okkar, sem voru þá 12 og 7 ára, þegar ég fékk símtalið frá lækninum mínum. Ég er hjúkrunarfræðingur sjálf og vissi að þetta væru ekki góðar fréttir. Ég gat ekki falið þetta fyrir dætrum mínum því ég fæ bara kvíðakast í bílnum og þær spurðu mig af hverju ég væri að gráta.

Þær skildu ekki orðið krabbamein og kinkuðu bara kolli en ég sagði þeim að ég yrði mjög líklega dáltítið veik í einhvern tíma. Þær áttuðu sig svo síðar þegar leið á meðferðina og ég fór að vera veik, missti hárið og augabrúnir. Sjálf áttaði ég mig ekki á hversu veik ég yrði og það sló mig mest. Ég þurfti allt í einu að taka bara eina mínútu í einu. Mér var kippt út úr öllu og varð sjúklingur.

Ég ætlaði sko alls ekki í Kraft og fara að hanga með krabbameinssjúklingum. Kraftur er hópurinn sem enginn vill vera í en ég áttaði mig svo eftir að hafa verið bent á að leita til þeirra og hef nýtt mér jafningjastuðninginn mikið. Enginn veit nefnilega hvernig þetta er nema hafa gengið í gegnum þetta. Það var strax svo góð tilfinning að tilheyra einhverju og finna fólk í sömu sporum, að vita að maður er ekki einn. Það er svo ótrúlega erfitt að vera einn í þessu. Ég hef mest nýtt mér Stelpukraft en við fjölskyldan höfum farið líka á sumarhátíðir og jólakvöld Krafts sem stelpurnar mínar elska. Þær sjá að þarna eru fleiri mömmur með krabbamein og fleiri krakkar sem eiga foreldra með krabbamein.

Nú er um hálft ár síðan ég kláraði meðferð, ég er í endurhæfingu og var að byrja að vinna. Ég er búin að vera síðasta árið að jafna mig en er bjartsýn fyrir þessu ári. Fólkið mitt ásamt Krafti kom mér í gegnum þetta. Hugarfar mitt hefur breyst á þann hátt að lífið er núna þannig að ef okkur langar að gera eitthvað þá gerum við það strax. Litlu hlutirnir skipta minna máli og við einbeitum okkur að núinu.

LÍFIÐ ER NÚNA KOLLAN

Sýndu Kraft í verki með því að setja upp LÍFIÐ ER NÚNA kolluna.

Húfurnar eru fáanlegar í tveimur litum og henta bæði fullorðnum og börnum. Það er hægt að bretta upp á þær að vild þar sem Lífið er núna merkið getur sést á alls kyns vegum.

Húfurnar fást á vef Krafts, í Companys Kringlunni, Karakter Smáralind og  völdum Krónuverslunum.

Kaupa húfu
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941