Bróðir – Árni Geir Sigurbjörnsson

33 ára

„Í svona ferli lærir maður að taka lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut“

Jóhann Björn, bróðir minn, fékk krabbamein og það var virkilega erfitt að horfa á hann ganga í gegnum þetta. Jóhann var í svaka formi og flottur enda búinn að vera mikið í íþróttum allt sitt líf. Ég held það sé mjög erfitt að greinast með krabbamein 25 ára og þurfa að ganga í gegnum lyfjameðferðir. Það var algjört ógeð að sjá hvernig svona lyfjameðferðir fara með fólk. Hann náttúrulega missti allt þrek, þrútnaði út og var fölur en missti þó ekki hárið. Ég sá líka hvernig lyfjagjafirnar urðu alltaf erfiðari og erfiðari hjá honum. En hann gafst aldrei upp.

Mér fannst skrýtið að geta ekki fylgt bróðir mínum almennilega í gegnum þetta út af Covid. En auðvitað töluðum við saman í gegnum myndsímtöl og ég reyndi að vera duglegur að stappa í hann stálinu þegar hann gekk í gegnum erfiða tíma. Ég sá gríðarlega mikinn þroska hjá honum í ferlinu. Við reyndum líka að hugsa stundum um eitthvað annað. Hann kom t.d. einu sinni til mín upp í hesthús. Þá var hann pínu slappur eða eitthvað skrítinn og vantaði smá styrk á milli lyfjagjafa. Við stálumst á hestbak og það gekk bara vel en hann fékk nú samt hlaupasting og við þurftum að stoppa en náðum svo að klára reiðtúrinn. Þetta var gaman og ég lofaði að segja engum frá en daginn eftir fékk hann botnlangakast og var skorinn upp í miðri lyfjameðferð.

Í svona ferli lærir maður að taka lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut. En ég var alltaf rólegur og hafði góða trú að þetta var verkefni fyrir hann. Maður varð samt að reyna að vera á bremsunni fyrir hann því hann ætlaði að sigra heiminn á milli lyfjameðferða. Ég er endalaust stoltur af bróður mínum fyrir hans mikla styrk og æðruleysi. Í þessu ferli hef ég algjörlega lært að það á að lifa núna og framkvæma það sem maður hefur í huga.

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941