Skip to main content

Richard og Bára

Bára greindist 34 ára með illkynja æxli í brjósti, Richard er maðurinn hennar

 „Fyrir okkur og fjölskylduna“

Síðasta sumar greindist Bára með illkynja æxli í brjósti þá 34 ára gömul. Framundan var þéttskipað sumarfrí með utanlandsferðum ofl. Plönin breyttust skyndilega við greininguna og í áfallinu sem fylgdi greiningunni hægðist á öllu, hver mínúta varð að klukkustund og hver dagur að viku. Hugsunin: „er ég að fara að deyja,“ skaut upp kollinum.

Richard: Það hafði verið mikið álag í vinnunni en það bara hvarf þegar við fengum fréttirnar. Ég lagði vinnuna til hliðar því heilsan skiptir öllu máli og fjölskyldan. Það að vera aðstandandi er svakalega erfitt því maður er svona fyrir utan. En við ákváðum að leita strax til Krafts því við vorum búin að taka þá ákvörðun að við ætluðum ekki að gera þetta bara tvö ein heldur ætluðum við að nýta allt sem var í boði og segja já takk við allri þjónustu og stuðningi. Bára tekur þátt í StelpuKrafti og ég í AðstandendaKrafti og við finnum það bæði hvað jafningjastuðningur skiptir miklu máli. Kraftur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur, til þess að maður sitji ekki heima og einangri sig. Þarna er vettvangur fyrir fólk til þess að deila reynslu, styrk og von.

Bára: Við eigum tvær stelpur, tveggja og sjö ára. Þessi eldri skilur og fann að það var eitthvað að gerast og við erum hreinskilin við hana. Hún var heima þegar ég fékk símtalið og sá marblettinn eftir sýnatökuna svo hún hefur verið inni í ferlinu frá upphafi. Hún átti sjö ára afmæli helgina sem fréttirnar komu, í bekkjarafmælinu sínu hljóp hún á milli vinkvenna sinna og sagði þeim fréttirnar af krabbameininu, en var samt alsæl með daginn sinn. Í eitt skipti um afmælishelgina leit hún á mig og sagði „mamma, ég sé að þú ert ekki að láta þetta litla vandamál skemma daginn fyrir þér“ og benti á brjóstið á mér.

Bára: Ég er búin með lyfjameðferð og kláraði geisla í síðustu viku, ég verð svo á líftæknilyfjum fram á sumar. Ég er í baráttuham og veit að ég þarf fyrst að setja gasgrímuna á mig og hugsa um mig áður en ég get farið að sinna öðrum. Það er heilsan og fjölskyldan sem skiptir öllu máli. Fyrst hélt ég að það að missa hárið væri erfiðast í þessu ferli en það breyttist við að heyra það að möguleika gætum við ekki eignast fleiri börn. Mér finnst erfiðast að krabbameinið tæki kannski þau völd af okkur. En við erum ótrúlega lánsöm að eiga tvær yndislegar dætur.

Richard: Við erum bæði svo þakklát fyrir það sem við höfum. Lífið er núna. Við vitum ekki hvað gerist en við njótum þess sem lífið hefur uppá að bjóða og finnum að fjölskyldan skiptir mestu máli. Að taka af skarið og tala um hlutina skiptir mestu máli. Ekki vera í sjálfsvorkun heldur finna strax hvernig þér líður, tala um það og kasta fram áhyggjum.

LÍFIÐ ER NÚNA KOLLAN

Sýndu Kraft í verki með því að setja upp LÍFIÐ ER NÚNA kolluna.

Húfurnar eru fáanlegar í tveimur litum og henta bæði fullorðnum og börnum. Það er hægt að bretta upp á þær að vild þar sem Lífið er núna merkið getur sést á alls kyns vegum.

Húfurnar fást á vef Krafts, í Companys Kringlunni, Karakter Smáralind og  völdum Krónuverslunum.

Kaupa húfu
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941