Skip to main content

Arna Ösp

Greindist 37 ára með krabbamein og missti móður sína þegar hún var 12 ára úr krabbameini

 „Fyrir mömmu“

Ég hef bæði reynslu af því að vera krabbameinsgreind og aðstandandi. Tólf ára missti ég mömmu mína úr eggjastokkakrabbameini þegar hún var sjálf bara 33ja ára. Þá voru ekki til nein stuðningsúrræði á borð við Kraft og ákveðið tabú að ræða veikindi, sérstaklega þegar börn eiga í hlut. Þrátt fyrir okkar sterka bakland hefði verið ómetanlegt fyrir okkur að vita af öðrum sem deildu okkar reynslu. Þegar ég greindist sjálf með heilaæxli 37 ára vissi ég að jafningjastuðningur á borð við þann sem Kraftur býður upp á myndi skipta mig máli í mínu bataferli.

Áður en ég greindist fannst mér ég lent á þeim stað í lífinu sem ég hafði stefnt að. Eftir fráfall mömmu hafði alltaf verið meðvituð um að tíminn sem manni er úthlutaður er ekki endilega í samræmi við óskir svo ég var nú ekki vön að bíða með að gera það sem mig langaði að afreka eða stefndi að. Ég var í góðu starfi, við fjölskyldan vorum nýflutt í draumahúsið, ég var heilsuhraust og sífellt á ferð á hjóli, skíðum og hlaupum út um hvippinn og hvappinn. Framundan áttu bara að vera spennandi ferðalög, upplifanir og afrek.

Líkt og hjá mömmu tók mjög langan tíma að greina hvað var að þegar heilsan fór að bresta. Við vorum báðar ungar, heilsuhraustar konur og það virðist því miður stundum hægja á greiningartíma þegar um alvarleg veikindi er að ræða. Á stuttum tíma hafði ég farið frá því að vera heilsuhraust og alltaf eitthvað að brasa í að geta lítið hreyft mig og unnið sem skyldi. Þar sem æxlið er í heilanum voru mörg einkenni óljós og erfitt að lýsa þeim. Oftar en einu sinni í ferlinu var niðurstaðan að um væri að ræða þunglyndi eða ,,burn-out”. Ég upplifði því létti þegar ég fékk loks rétta greiningu, skaðvaldurinn hafði nafn og hægt var að gera einhverja áætlun. Það var mín leið til þess að takast á við þetta; að líta á þetta sem verkefni. Ég upplifði ekki þörf fyrir að sigrast á þessu eða líta á krabbameinið sem andstæðing minn. Mín huggun í ferlinu var að vera vel upplýst um meðferðarmöguleika og hvernig ég gæti best varðveitt lífsgæði mín og endurheimt færni. Læknisfræðinni fleygir of ört fram til að velta fyrir sér lífslíkum eða meðallifun.

Ég hætti að geta stundað flest af því sem ég naut mest en komst að því að eftir stendur alltaf það dýrmætasta; einföldustu hlutirnir sem við tökum sem sjálfsögðum. Þetta var rosalega góð kennslustund í æðruleysi gagnvart því sem maður fær ekki breytt og þakklæti fyrir lífið í sjálfu sér; sama hve hægan takt það hefur.

Ég fór í aðgerð úti í Bandaríkjunum þar sem stór hluti af æxlinu var fjarlægður. Þar kom líka staðfesting á að það verður förunautur minn út lífið en sem betur fer lítur út fyrir að hægt sé að halda í skefjum með meðferð og lyfjagjöf. En það er bara hluti af bataferilnu; eftir svona veikindi er maður á ákveðnum núllpunkti á marga vegu; ýmist heilsufarslega, andlega, atvinnulega, fjárhagslega o.s.frv. Það skiptir máli að vinna með það og Kraftur sinnir akkúrat því ómetanlega hlutverki.

Hjá mér skiptir Kraftur mestu máli fyrir börnin mín því þegar mamma var veik upplifði ég mig frekar eina í heiminum. Ég þekkti engan sem átti veikt foreldri. Það var enginn farvegur fyrir mína óvissu. Í gegnum Kraft hafa mín börn kynnst öðrum í svipaðri stöðu, hafa séð af eigin raun að margir jafna sig af krabbameini og vita líka að það er í lagi að spyrja; nokkuð sem ég var mjög hrædd við að gera. Jafningjastuðningurinn gerir mér í dag kleift að spegla mig í reynslu annara og eiga auðveldara með styðja börnin mín í þeirri óvissu sem fylgir því að eiga foreldri sem glímir við krabbamein.

Eftir þetta allt er ég þakklát, þrátt fyrir að þetta hafi verið erfið reynsla og ég sé með þennan óvelkomna lífsförunaut sem ég þarf að sættast við út lífið er ég ótrúlega þakklát fyrir margt. Dásamlegan félagsskap og stuðning í Krafti, allar kennslustundirnar í æðruleysi og að kunna að meta smáa og einfaldari hluti, sátt við að lifa í hægari takti.

Lífið er núna kollan

Sýndu Kraft í verki með því að setja upp LÍFIÐ ER NÚNA kolluna.

Húfurnar eru fáanlegar í tveimur litum og henta bæði fullorðnum og börnum. Það er hægt að bretta upp á þær að vild þar sem Lífið er núna merkið getur sést á alls kyns vegum.

Húfurnar fást á vef Krafts, í Companys Kringlunni, Karakter Smáralind og  völdum Krónuverslunum.

Kaupa húfu
Close Menu

Kraftur

Skógarhlíð 8
105 Reykjavík

Sími: 866-9600
Stuðningssími: 866-9618
Netfang: kraftur@kraftur.org
Kennitala: 571199-3009
VSK: 102941